Er Facebook á niðurleið?

Er Facebook á niðurleið?

28/01/2018 Samfélagsmiðlar 0
  • Facebook mun um fyrirsjáanlega framtíð vera langstærsti samfélagsmiðillinn en þátttaka er á niðurleið,  m.a. vegna minnkandi trausts og leiða á auglýsingum og upplýsingasöfnun.
  • Unga fólkið fílar ekki Facebook og notar það eins lítið og það getur, það er vond staða til að vera í þegar til framtíðar er litið.
  • Boðaðar breytingar á Facebook eru ekki komnar til framkvæmda og í raun er óvíst hverjar og hvenær þær verða
  • Þér er óhætt að halda áfram að auglýsa á Facebook en það er ekki sama hvernig það er gert ef þú vilt nýta tíma þinn og peninga vel.

Á síðasta ári var orðið nokkuð ljóst að vegur Facebook færi hnignandi, amk. hvað þátttöku varðar. Bæði tölur og óformleg greining á hegðun notenda sýna að fólk einfaldlega tekur minni þátt en áður. Ástæðurnar eru margar en m.a. er orðið of mikið af auglýsingum og traust til miðilsins hefur minnkað í kjölfar Brexit og kjörs Trump þar sem veikleikar Facebook voru kerfisbundið misnotaðir til að dreifa röngum upplýsingum til milljóna manna. Einnig eru margir orðnir leiðir á því hversu hlaðið Facebook er af auglýsingum og það er greinilegt að yfirlýsing Mark Zuckerberg um aukið vægi pósta frá einstaklingum er ætlað að takast á við þessi tvö vandamál.  

Facebook hætti að vera kúl staður hjá unga fólkinu fyrir nokkrum árum síðan og hefur reyndar lengi verið staðurinn sem foreldrarnir eru á, þeir staðir eru ekki mjög kúl. Unga fólkið notar Facebook líka töluvert öðruvísi en þeir sem eldri eru. Þau eru flest þar en nota það mest í spjall, bæði tveggja tal og líka hópspjall. Þau pósta líka til að taka þátt í samkeppnum þegar þau langar í verðlaunin en nota Facebook annars lítið. Sumir pósta auðvitað selfies en Instagram og Snapchat eru mun sterkari þar. Ef unga fólkið fílar þig ekki þá er framtíðin ekki björt þó vissulega séu enn sóknarfæri á nýjum mörkuðum.

Það er upplifun mín (og þeirra sem ég hef rætt við) að mun færi smelli Like á pósta í hópum (opnum og lokuðum) heldur en áður var og oft taki fólk þátt í samræðum en hafi ekki fyrir því að likea póstinn sjálfan. Verðlaunin eru ekki næg, leikjavæðingin er ekki nægilega vel unnin, ef fólk Likear ekki pósta þá er minni hvatning til að pósta meiru enda virðist póstum á Facebook fækka á milli ára. Facebook gefur ekki upp sundurgreinanleg gögn um hegðun notenda heldur eingöngu eina og eina fallega tölu og því er erfitt að meta þessa breytingu.  

Facebook verður eftir sem áður mikilvægur miðill en vægi hans mun og er að breytast og minnka. Ekki er ósennilegt að Facebook sé byrjað leiðina niður af toppnum eins og MySpace og fleiri hafa gert áður en hvernig og hversu mikið á eftir að koma í ljós. Það ferli mun velta á mörgum breytum og ekki þá síst hvernig Zuckerberg og Facebook munu bregðast við. Nýjustu viðbrögð eru ekki mjög sannfærandi og frekar hræðslukennd en á komandi mánuðum munum við sjá hvernig sjálf útfærslan verður. Það er nokkuð ljóst að ef Facebook ætlar að snúa þessari þróun við þarf eitthvað annað og meira en það sem þegar hefur heyrst frá þeim. Það er auðvitað allt of snemmt að afskrifa Facebook en risaeðlu einkennin verða meira og meira áberandi.

Hnignun Facebook hefur auðvitað mikil áhrif á aðra samfélagsmiðla enda eru allir að keppa um það sama, athygli og peninga okkar og þeir peningar og athygli sem fólk hefur gefið Facebook þurfa að fara eitthvað annað. Í ljósi nýjustu tilkynninga um breytinga á Facebook þá vaknar spurningin: Hvert munu fyrirtækin fara til að auglýsa sínar vörur? Og hvert mun almenningur flytja sig?

Líklegt er að næstu 1-2 ár muni einkennast af óvissu um hvar best sé að kynna vörur og þjónustu, hvort sem Facebook fer eftir þeirri línu sem Zuckerberg hefur lagt undanfarið eða dregur í land með þær. Möguleikarnir eru auðvitað margir en enginn samfélagsmiðill er í dag augljós arftaki Facebook og ekki ólíklegt að eitthvað alveg nýtt komi fram sem muni hrífa með sér almenning og fyrirtæki. Framtíðin er allavega mjög áhugaverð þessa dagana hvað miðlun á netinu varðar.

Meira síðar, skráðu þig hér að neðan ef þú vilt fylgjast með

 

Ítarefni

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *